154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Hver er loftslagsstefna Íslands? Stutta svarið er að hún er hvergi til. Hún birtist hins vegar í ýmsum verkum ríkisstjórnarinnar. Loftslagsstefnan birtist í því að ríkisstjórnin starfar enn þá samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem hefur ekki verið uppfærð í fjögur ár frá síðasta kjörtímabili og loftslagsstefnan birtist í því að framlög til loftslagsmála voru skorin niður um milljarða á fjárlögum þessa árs og stefnt er að enn meiri lækkun á næstu fimm árum samkvæmt fjármálaáætlun.

Ég spyr um markmið ríkisstjórnarinnar. Fyrir síðustu kosningar byggðum við Píratar umhverfis- og loftslagsstefnu okkar á vísindum. Það skilaði markmiði upp á 70% samdrátt í losun árið 2030. Það skilaði Pírötum líka hæstu einkunn í Sólinni hjá ungum umhverfissinnum. Í stjórnarsáttmála er sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt. Þar virðist gengið lengra en í skuldbindingum með Evrópusambandinu frá 2020 sem flest bendir til að stefni í 41% samdrátt í samfélagslosun og þar var gengið enn lengra en í úreltu aðgerðaáætluninni sem miðar við 29% lækkun. Vandinn er að ekkert af þessum markmiðum er að nást. Framreikningur Umhverfisstofnunar frá síðasta ári bendir til að samdráttur í samfélagslosun verði 24% árið 2030. Það er ekki einu sinni helmingur af yfirlýstu markmiði ríkisstjórnarinnar. Því vil ég vita: Hvernig standa markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hver er framreiknaður samdráttur fyrir árið 2030?

Ég spyr um aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Píratar leggja áherslu á að aðgerðir í loftslagsmálum séu réttlátar og gagnist öllu samfélaginu. Þannig fáum við öll með í það verk sem þarf að vinna í þágu framtíðarkynslóða. Þess vegna hafa Píratar veitt ríkisstjórninni virkt aðhald í sínum áætlunum. Þetta reyndi á þegar ríkisstjórnin studdi fólk til rafbílakaupa án þess að nota tækifærið til að fækka einkabílum og aftur þegar hún breytti stuðningskerfinu svo klúðurslega að sala á rafbílum hrundi um síðustu áramót. Þetta reyndi á þegar til stóð að fella algerlega niður ívilnun til reiðhjóla. Þó að ráðherra tali gjarnan um að nota peninginn þar sem hver króna skili sem mestu var ekkert af þessum skrefum metið út frá loftslagsáhrifum. Hér er ekkert grænt reiknilíkan notað. Langfæstar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru yfir höfuð metnar út frá þessum áhrifum. Því vil ég vita: Hvaða aðgerðir hafa skilað mestum samdrætti á undanförnum árum? Hvaða aðgerðir mun muna mest um til ársins 2030? Er fjármögnun þeirra tryggð og hversu miklum samdrætti mun hver þeirra skila?

Ég spyr um jafnvægi á milli loftslagsmála og náttúruverndar. Píratar jarðtengja alla sína umhverfis- og loftslagsstefnu með varúðarreglunni, þeirri grunnreglu umhverfisréttar sem krefst þess að við ígrundum vandlega allar ákvarðanir sem hafa áhrif á náttúru og lífríki. Vöxtur samfélagsins þarf að vera í sátt við náttúruna sem við erum hluti af. Ríkisstjórnin virðist vera á öðrum stað. Á peppfundi til að fagna endurlífgun stjórnarinnar eftir páska gekk varaformaður Sjálfstæðisflokksins svo langt að segja: Við þurfum ekki fleiri áætlanir um minni losun, heldur bara að virkja, virkja, virkja. Í því landi sem framleiðir meira af endurnýjanlegri raforku en nokkuð annað ríki verður loftslagsvandinn ekki leystur með endalaust fleiri megavöttum. Þannig hugsar bara stjórnmálafólk sem sér ekki stóru myndina, að loftslagsvandinn er líka vandi líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruverndar. Því vil ég vita: Hvernig mun ráðherra sjá til þess að markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd fari saman? Verða markmið um samdrátt í losun tengd við markmið ríkisstjórnarinnar um endurheimt og friðun 30% landsvæðis?

Ég spyr um orkuskipti. Við Píratar höfum talað fyrir því að gera þurfi raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar og hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Rými til slíkrar umræðu er ekkert hjá núverandi ríkisstjórn. Frá fyrsta degi hefur ráðherra farið mikinn í því að nýta sér baráttuna í loftslagsmálum til að ýta á úrelta virkjunarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann klifar á því að það þurfi að tvöfalda raforkuframleiðslu, tvöfalda framleiðslu í útbólgnasta raforkukerfi heims. Það er hins vegar fullkomlega innstæðulaust meðan ríkisstjórnin hefur ekki fest í sessi neinar reglur sem tryggja að ný orka fari í orkuskipti. Því vil ég vita hvaða aðferðum verður beitt til að tryggja að bæði núverandi og ný orka (Forseti hringir.) nýtist í bein orkuskipti umfram aðra starfsemi í ljósi þess að farið er með raforku sem vöru á samkeppnismarkaði?